top of page
Writer's pictureGuðný Valborg Guðmundsdóttir

Barnaburður (e. babywearing)

Updated: Oct 21, 2022

Barnaburður er náttúruleg leið til að annast barnið sitt og fær barnið tækifæri til að uppgötva umhverfi sitt og taka virkan þátt í heimi fullorðna. Barnaburður var eðlilegur hluti af daglegu lífi fólks í margar aldir og er það enn í stórum hluta heimsins. Að bera barn veitir barninu andlegt öryggi og svarar þörfum barna á náttúrulegan hátt og getur verið stór liður í að auðvelda daglegt líf foreldra. Einnig veitir það barninu nánd og öryggi og hefur ekkert með ofdekur að gera!


Að bera barnið mitt í burðarsjali (eða burðarpoka) er eitt það besta sem ég hef gert. Ég vildi óska að ég hefði kynnst burðarsjölum fyrr, helst áður en ég átti Matthías. Það var ekki fyrr en Matthías var aðeins meira en tveggja mánaða, að ég prófaði burðarsjal í fyrsta skipti. Það var á gamlárskvöld, við vorum í heimsókn hjá vinafólki okkar og vinkona mín spurði hvort ég vildi prófa. Vá. Lífið sem mamma breyttist eftir það. Til þess að gefa ykkur smá hugmynd um hvernig lífið var búið að vera fyrstu tvo mánuðina í fæðingarorlofi skal ég útskýra. Matthías var mjög óvært barn, grét mikið og vildi stanslaust láta halda á sér. Ég reyndi mitt besta að halda á honum eins mikið og ég gat en það var erfitt þar sem ég var með svo mikla vöðvabólgu. Brjóstagjöfin gekk erfiðlega sem gerði það að verkum að í hvert skipti sem ég gaf honum var ég mjög spennt í líkamanum. Ég var orðin það slæm að ég var með krónískan höfuðverk og stanslaust óglatt. Mér fannst ég ekki geta komið neinu í verk, þar sem ég var alltaf með hann í fanginu.


Þegar Matthías svaf, lagði ég hann frá mér í rúmið okkar, en fannst alltaf óþægilegt að hafa hann frá mér. En á sama tíma, þurfti líkaminn pásu. Mér fannst þetta allt mjög erfitt, þangað til þetta gamlárskvöld þegar ég prófaði burðarsjalið. Allt í einu leið honum vel, svaf í meira en 20 mínútur í senn og ég náði að slaka á og ég var með frjálsar hendur. Ég gat meira að segja farið á klósettið!


Hvað er barnaburður?

Barnaburður (e. babywearing) er þegar maður ber barnið sitt í burðarsjali eða burðarpoka. Barnaburður hefur verið stundaður öldum saman, löngu áður en barnavagnar komu til sögunnar. Þegar litið er til annarra landa, þá aðallega utan hins vestræna heims, eru margir menningarflokkar þar sem telst venjulegt að börn séu borin íburðarsjali og/eða burðarpoka, og barnavagnar taldir óþarfir. Að bera barnið sitt gefur því umhyggju, nærveru og nánd sem það þarf á að halda og á sama tíma gefur það foreldrum frjálsar hendur. Foreldrar hafa möguleika á að vinna (upp að vissu marki), sjá um eldri börnin, elda, sinna húsverkum og fleira án þess að láta barnið frá sér.


Mér fannst alltaf eitthvað rangt við að Matthías væri bara útí horni, aleinn í sínum heimi. Ég fékk að heyra það þó nokkrum sinnum, "já en hann þarf að læra að vera með sjálfur sér, bara einn, svo að hann verði ekki of háður þér". Þegar ég lít til baka er ég mjög ánægð að ég hafi fljótt hætt að hlusta á þau ráð. Ég vildi hafa hann nálægt mér. Þegar við vorum saman þá var það ekki bara hann sem var ánægðari, heldur ég líka. Ég var búin að ganga með hann í maganum í 9 mánuði. Hann var búin að upplifa heiminn í gegnum mig, heyra hjartsláttinn minn, heyra röddina mína og því fannst mér sjálfsagður hlutur að hann myndi vilja halda þeirri nánd áfram. Ég reyndi að ímynda mér hvernig honum liði að vera komin út úr hlýjunni, og út í þennan stóra heim og „ætti“ bara að liggja einn með sjálfum sér? Mér fannst eitthvað rangt við þetta. Með tímanum gat hann öðlast sjálstæði, á sínum hraða, en þangað til vildi ég vera til staðar.


Hver er ávinningurinn af að bera barnið sitt?

  • Börn sem eru borin (í fanginu, með burðarsjali, í burðarpoka) kvarta minna og verja meiri tíma róleg og vakandi að skoða og læra á umhverfi sitt.

  • Húð við húð snerting veldur losun á oxytósín í líkamanum en oxytósín er hamingjuhormón sem ýtir undir tengslamyndun, róar bæði móður og barn og getur hjálpað að koma í veg fyrir fæðingarþunglyndi.

  • Eykur tengslin á milli barns og móður og getur auðveldað brjóstagjöf.

  • Þessi stöðuga nálægð við barnið gerir foreldrinu betur kleift að læra á barnið og verður þar með næmari sem foreldri.

  • Ungabörn hafa tilhneigingu til að vera rólegri þegar þau eru borin. Þau fá tækifæri til að heyra, snerta, finna lykt og jafnvel finna hjartsláttinn hjá þeim sem ber það, sem gefur barninu öryggi.

  • Hjálpar líka til við að styrkja jafnvægi barnsins (innra eyra) og barnið æfir ýmsa vöðva á því að vera í uppréttri í stöðu í staðin fyrir að liggja stóran part úr degi. Þetta gerir það að verkum að börn sem eru borin, eiga mun minni líkur á að fá flatt höfuð (positional plagiocephaly/flat head syndrome).

  • Gefur foreldrum meira frelsi og auðveldar daglegt líf (hæ lausar hendur!)

  • Örvar þroska mjaðmaliðanna.



Himnasending á erfiðum tímum

Á þeim tímum sem Matthías hefur verið órólegur eða veikur hefur burðarsjalið verið himnasending. Möguleikin á að vera húð á móti húð og vafinn þétt að mér, nær að róa hann fljótt. Þegar hann hefur verið alveg ómögulegur og við ekki vitað hvað við ættum að gera hefur alltaf (já ég meina ALLTAF) virkað að láta hann í burðarsjalið og fara út að labba. Fótgangurinn og nándin gerir það að verkum að hann róast og á meðan hann var lítill sofnaði hann nánast undantekningarlaust.


Mismunandi tegundir burðarsjala/poka

Það eru til margar tegundir af burðarsjölum og burðarpokum. Að finna burðarpoka/sjal fyrir sig er mjög einstkalingsabundið en það er mikilvægt að efnið sé sterkt og að það styðji vel við bakið en leyfi samt barninu að vera í kúptri stellingu. Á þann hátt er sem minnsta álag á hryggjasúlu barna. Ég mæli með að byrja með teygjanlegt burðarsjal (oft kallað moby wrap), fyrstu vikurnar. Ég myndi svo mæla með að færa sig yfir í ofið burðarsjal ef þú treystir þér til eða burðarpoka/mei tai. Hérna eru stuttar skýringar á helstu möguleikunum:


Teygjanlegt burðarsjal (e. stretchy wrap): er oft kallað moby wrap á Íslandi og er teygjanlegt efni sem þú vefur í kringum þig og barnið. Þú getur valið um nokkrar stellingar fyrir barnið. Það er auðvelt að taka barnið úr sjalinu án þess að þurfa að losa bindinguna. Þegar þú lætur barnið aftur í burðarsjalið þarftu kannski að laga burðarsjalið til eða þrengja á sumum stöðum.


Ofið burðarsjal (e. woven wrap): er langt ofið efni (til í mörgum stærðum) sem þú vefur í kringum þig og barnið. Algengustu efnin eru bómull en oft er það líka blandað með hör, silki og ull. Til eru ógrynni af bindingum sem gefa þér kost á að bera barnið framan á þér, á bakinu og á mjöðminni. Ofið burðarsjal mun hiklaust gefa þér flesta möguleikana og þú getur valið bindingu sem hentar þér og þinni stærð. Þú getur byrjað að nota ofið burðarsjal frá fæðingu og alveg þangað til barnið er 3-4 ára. Ókosturinn er að það getur tekið dágóðan tíma að læra á bindingarnar, sérstaklega ef þú færð ekki hjálp frá einhverjum sem getur leiðbeint þér.


Ring sling: er ofið burðarsjal sem þú vefur í kringum þig og notar síðan hringi til þess að binda saman. Kostir þess er að þú getur auðveldlega tekið barnið úr bindingunni án þess að þurfa að gera allt upp á nýtt.


Burðarpoki (e. full buckle): er mjög auðvelt að nota, þú þarft ekki að binda neitt heldur einfaldlega kemur barninu fyrir í pokanum, smellir saman og voila, tilbúið! Ókosturinn er sá að burðarpokar eru ekki taldir góðir fyrir ungabörn (þótt að þú getur keypt ungabarnainnlegg með). Burðarpokar passa heldur ekki fyrir allar líkamstærðir. Þess vegna er mikilvægt að þú tekur til greina þína líkamsstærð ef þú ætlar að kaupa þér burðarpoka. Til dæmis, við keyptum ergobaby burðarpoka þegar Matthías var um 6 mánaða. Burðarpokinn passar fullkomlega fyrir Mac, en passar alls ekki fyrir mig þar sem ég er svo lágvaxin. Allur þunginn fer í mjóbakið á mér í staðin fyrir að dreyfast yfir axlir, mjaðmir og bak.


Mei Tai: er blanda af burðarpoka og burðarsjali en í staðin fyrir að smella saman sylgjum, bindir maður pokann í kringum sig í staðin. Mei tai er gott val ef þú vilt sveigjanleikan sem fylgir burðarsjalinu en vilt eitthvað sem virkar fljótlegra og ekki eins flókið.


Ef þú ákveður að kaupa burðarpoka (sem flestir gera) er mjög mikilvægt að velja burðarpoka þar sem barnið setur „ergonomically“ rétt. Sætið verður að styðja vel undir bossann og lærin alla leið að hnébótum. Barnið skal vera með hnén í naflahæð (og þá sérstaklega ungabörn). Í burðarpokum mæli ég með merkjunum manduca, ergobaby og babytula. Hinsvegar mæli ég ekki með merkjunum stokke og babybjörn þar sem nauðsynlegur stuðning við hnéin vantar. Þetta veldur því að barnið situr ekki rétt og dreyfingin á þyngd barnsins getur haft neikvæð áhrif á mjaðmir og viðkvæma hryggjasúlu þess. Myndin hér að ofan útskýrir muninn vel. Sumir burðarpokar bjóða upp á að hægt sé að hafa barnið framvísandi. Það er ekki mælt með því þar sem barnið situr ekki ergonomically rétt þar sem þyngdarpunktur barnsins er ekki á réttum stað.


Ég vona að þessi færsla hafi verið hjálpsöm og vona að fleiri foreldrar ákveða að prófa sig áfram með burðarsjöl/poka. Ef þú vilt lesa nánar um efnið mæli ég með:


Wrap you in love: er youtube síða þar sem er ógrynni af myndböndum af mismunandi bindingum og upplýsingum um mismunandi burðarsjöl og burðarpoka.


Facebookhópurinn Burðarpokatorg.

Comments


bottom of page